Þrátt fyrir að erlenda orðið sauna sé gjarnan notað í daglegu tali er íslenska heiti þess með réttu ritað sána og skilgreint samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók sem „gufubað með heitum steinum sem vatni er skvett á, finnskt gufubað“.
Sána er þurrhitameðferð þar sem lofthiti er hækkaður upp í allt að 70 til 90 gráður með því að hita steina. Vatni er svo hellt yfir steinana til þess að framkalla gufu í skamman tíma. Hitinn sem myndast hefur djúpstæð áhrif á líkamann og getur haft margs konar jákvæð áhrif á blóðrása-, tauga-, og öndunarkerfið. Hitinn sem myndast veldur því að æðar víkka og þrengjast á víxl. Þannig örvar meðferðin blóðrásina og stuðlar að betri súrefnisflutningi um líkamann. Í slíkum aðstæðum verður svitamyndun líkamans talsverð og líkamann losar út allskyns eiturefni í kjölfarið.
Þar sem við búum við krefjandi veðurfar á Íslandi þarf að huga sérstaklega að því hvernig sánur eru hannaðar og smíðaðar. Mikilvægt er að nota efni sem tryggja góða einangrun og draga úr varmatapi og þannig ná fram stöðugum yfirborðshita innan rýmisins. Lausnir sem taka mið af íslenskum aðstæðum – s.s. forrými eða yfirbyggt inngangssvæði, skipta oft sköpum þegar kemur að orkunýtni og endingu.
Þegar sána er vel hönnuð og smíðuð með gæðum að leiðarljósi getur hún orðið bæði heilsubætandi skjól og falleg viðbót við heimilið.




